Velta í dagvöruverslun jókst um 2,5% á föstu verðlagi í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra og um 3,5% á breytilegu verðlagi, samkvæmt Rannsóknarsetri verslunarinnar í Háskólanum á Bifröst. Velta dagvöruverslunar hefur farið vaxandi undanfarna fjóra mánuði. Í umfjöllun Rannsóknarsetursins, sem má lesa í heild hér að neðan, segir að dagvöruverslun virðist smám saman vera að ná sér á strik eftir langvarandi samdráttarskeið.

Umfjöllun Rannsóknarseturs verslunarinnar:

Velta í dagvöruverslun jókst um 2,5% á föstu verðlagi í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra og um 3,5% á breytilegu verðlagi. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í febrúar um 2,6% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 1,1% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Sala áfengis dróst saman um 0,9% í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og um 0,1% á breytilegu verðlagi. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum nam samdráttur í veltu áfengis í febrúar 0,6% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,9% hærra í febrúar síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Fataverslun var 13,0% minni í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og minnkaði um 11,7% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum dróst velta fataverslunar í febrúar saman um 13,2% frá sama mánuði árið áður. Verð á fötum hækkaði um 1,6% í febrúar síðastliðnum frá sama mánuði ári fyrr.

Velta skóverslunar jókst um 4,9% í febrúar á föstu verðlagi og um 4,8% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Verð á skóm lækkaði um 0,1% frá febrúar í fyrra.

Velta húsgagnaverslana jókst um 23,2% í febrúar frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi og um 13,3% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum var 1,4% hærra í febrúar síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra. Velta sérverslana með rúm jókst í febrúar um 56,8% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Velta í sölu skrifstofuhúsgagna var 50,0% meiri í febrúar síðastliðnum samanborið við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi.

Sala á raftækjum í febrúar jókst um 24,5% á föstu verðlagi frá sama mánuði í fyrra og um 7,7% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Verð á raftækjum lækkaði um 13,5% frá febrúar 2010.

Verðlag og neysla

Velta dagvöruverslana hefur verið vaxandi síðustu fjóra mánuði. Þannig virðist jafnvægi vera að komast á í dagvöruverslun og hún smám saman að ná sér á strik eftir langvarandi samdráttarskeið.

Sala raftækjaverslana var næstum fjórðungi meiri í febrúar síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og hefur sala á raftækjum vaxið stöðugt frá miðju síðasta ári. Líklegt er að vöxturinn ráðist að einhverju leyti af því að verð fer lækkandi á raftækjum og var13,5% lægra í febrúar síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra.

Álíka aukning varð í sölu húsgagna á milli ára. Ætla má að botninum sé náð í samdrætti á sölu húsgagna og jafnvægi að nást eftir mikinn samdrátt sem varð í upphafi hrunsins. Athyglisvert er t.d. að velta þeirra verslana sem sérhæfa sig í sölu á rúmum jókst í febrúar um 56,8% á föstu verðlagi milli ára og 50% aukning varð í sölu skrifstofuhúsgagna í febrúar frá sama mánuði í fyrra.

Hins vegar dróst fataverslun saman um 13% frá sama mánuði í fyrra. Áhrif efnahaghrunsins 2008 hafði ekki eins fljótt áhrif á fataverslun eins og aðrar tegundir sérverslana. Samdráttur í fataverslun hófst ekki af alvöru fyrr en um mitt árið 2010 og stendur enn eins og kemur fram hér að ofan. Gömlu flíkurnar eru því nýttar betur nú en áður.