Dönsk skattayfirvöld hafa hafið herferð gegn dönskum ríkisborgurum sem flutt hafa fé til útlanda án þess að borga fyrst af því skatt innanlands. Talað er um að þeir skuldi 4,6 milljarða danskra króna í skatt í heimalandinu eða jafnvirði 110 milljarða íslenskra króna.

Tolla- og skattayfirvöld hafa tekið höndum saman við bæjarfélög í Danmörku um að ná lögmætum skatttekjum til baka. Skatturinn er nú með í höndunum 45.000 kröfur frá yfirvöldum um ógreidda skatta af þessu tagi. Haft er eftir deildarstjóra hjá dönsku skattstofunni í dagblaðinu Berlingske Tidende að þeir hafi þegar innheimt 90 milljónir danskra króna (jafnvirði 2,2 milljarða ísl. kr.) og hafi gert samninga um greiðslu 200 milljóna danskra króna til viðbótar. Fram kemur að þótt skattayfirvöld leggi fyrst áherslu á þá sem skulda stórar fjárhæðir verði hinir minni ekki látnir í friði heldur.

Í danska blaðinu Börsen kemur fram að nú geti danskir ríkisborgarar ekki lengur komist í skjól með peningana sína í Lúxemborg. Danski skattamálaráðherrann undirritaði í byrjun júní samkomulag við skattayfirvöld í Lúxemborg um aðgang að upplýsingum um peningaeignir Dana þar í landi.

Skömmu áður hafði Danmörk gert samskonar samkomulag við svissnesk skattayfirvöld. Þar á undan höfðu verið gerðir samningar af sama tagi við skattaskjólin á eyjunum Man, Guernsey, Jersey, Bermuda, Cayman og Bresku jómfrúareyjum.

Þá hafa smáríkin Andorra og Lichtenstein gefið til kynna að þau muni ekki lengur vilja halda hlífiskildi yfir peningum ríkra útlendinga gagnvart skattayfirvöldum í viðkomandi löndum.