Frostmark er eitt af leiðandi fyrirtækjum landsins í hönnun, smíði og þjónustu kæli- og frystilausna. Meginhluti sölunnar fer fram hérlendis en hluti hennar á erlendum mörkuðum.

„Við höfum verið að þróa sérlausnir á ýmsum sviðum sem við erum stoltir af," segir Guðlaugur Þór Pálsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Hann segir fyrirtækið fyrst og fremst starfa á fyrirtækjamarkaði og viðskiptavinir þeirra séu að mestu leyti í sjávarútvegi og matvælavinnslu. Einnig selji þeir lítillega til fyrirtækja og stofnana í rannsóknarstarfsemi þar sem miklar kröfur séu gerðar og þörf sé á vönduðum sérlausnum.

Af sérhæfðum vörum Frostmarks má nefna vatns- og sjókælikerfi en að sögn Guðlaugs standa þau mjög framarlega miðað við sambærilegar lausnir á heimsvísu. Um er að ræða búnað sem kælir niður sjó og vatn með nákvæmari hætti en áður hefur tíðkast.

Tækin eru notuð um borð í skipum og einnig í vinnsluhúsum. Í skipum eru þau notuð til að kæla niður aflann á millidekki áður en hann fer í vinnslu. Með sama hætti eru þau notuð í vinnsluferlinu og áður en aflinn fer ofan í lestirnar, ýmist ferskur eða frosinn. Hann segir ýmsan annan búnað til sem kælir niður sjó og vatn en enginn komist eins langt niður í hitastigi og þeirra búnaður. Að sögn Guðlaugs fer flestur annar búnað niður í 4-6 gráður á meðan þeirra nái niður að frostmarki.

Frostmark hefur selt sjó- og vatnskælikerfin á erlenda markaði, aðallega til Evrópu og Afríku. Nú liggur t.d. inni pöntun á 20 vélum frá írsku fyrirtæki sem hyggst setja þær upp í bátum sínum sem veiða fisk við Írlandsstrendur.

_____________________________________

Nánar er fjallað um Frostmark í viðtali við Guðlaug Þór Pálsson, framkvæmdastjóra fyrirtækisins í sérblaði um iðnað og atvinnulíf sem fylgir Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .