*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 20. maí 2013 19:20

Dansað í félagsheimili þjóðarinnar

Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu, segir frábært að vera í húsinu á hverjum degi.

Ritstjórn

„Er ekki skásta viðleitni stjórnenda að gera sjálfa sig óþarfa? Stundum fylgist maður bara með viðburðunum til að sjá hvað allt gengur vel fyrir sig,“ segir Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu, spurður að því hvort hann sé duglegur að mæta á atburði í Hörpu.

„Mér finnst raunar frábært að vera hér í húsi á hverjum degi. En ég get nefnt tvennt sem mér fannst mjög merkilegt að upplifa. Annað var Sónar. Þó að tónlistin sé ekki öll fyrir mig þá fannst mér ótrúlega gaman að fylgjast meðfólkinu sem sótti hátíðina og lagði Hörpu alla undir sig. Það var dansað meira að segja í bílakjallaranum! Svo er viðburður sem við stóðum sjálf fyrir þegar Fílharmóníuhljómsveit Berlínar kom og lék hér í Eldborg. Þetta er kannski ein af tveimur bestu hljómsveitum í heimi á sínu sviði og að sjá hvað þau voru dolfallin yfir húsinu, og heyra þau svo sjálfur – það var alveg rosalega gaman,“ rifjar Halldór upp.

„Og þá dáist maður líka af samstarfsfólki sínu, verð ég að segja. Svona stórir viðburðir eru mannaflafrekir. Þó við séum nú ekki mörg í fullri vinnu hér, þá bætast verktakar við, og að sjá kannski hátt í 200 aðila vinna hér baksviðs er frábært. Þetta gengur allt svo vel fyrir sig og það er bara starfsfólkið sjálft sem sér ef eitthvað fer úrskeiðis en gesturinn ekki. Og það er auðvitað markmiðið. Harpa er félagsheimili þjóðarinnar og heimsókn þar á að vera upplifun.“

Ítarlegt viðtal við Halldór má lesa í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.