Danska ríkið veitti FIH víkjandi lán í júní í fyrra auk þess sem það ábyrgðist um 1.000 milljarða króna skuldabréfaútgáfu bankans um mánuði síðar. Lánin voru veitt til að styrkja eigið fé bankans sem var farið að láta verulega á sjá.

Þessi mikla fjárhagsaðstoð danskra yfirvalda setti þau í kjörstöðu til að þrýsta á fyrirliggjandi tilboðum í hlut íslenskra aðila í Fih yrði tekið. Bankinn var að lokum seldur fyrir tæpum tveimur vikum til kaupendahóps undir forystu tveggja danskra lífeyrissjóða.

Dældu fé í FIH

Fjármögnun danskra yfirvalda var tvennskonar. Annars vegar veitti danska ríkið bankanum víkjandi lán upp á 1,9 milljarða danskra króna (um 40 milljarðar ísl. króna)þann 30. júní 2009.

Lánið var veitt til að styrkja eigið fé bankans. Mánuði síðar, í júlí 2009, samþykkti síðan danska bankasýslan, Finansiel Stabilitet (FS), að veita FIH ríkisábyrgð á skuldabréfaútgáfu upp á 50 milljarða danskra króna (um 1.040 milljarða ísl. króna). Til að átta sig á stærðinni er um að ræða 2/3 hluta af vergri landsframleiðslu á Íslandi eða tæp 60% af heildareignum íslenska lífeyrissjóðakerfisins.

Ábyrgðin var veitt undir formerkjum svokallaðs Bankapakka II sem danska ríkið setti saman til að bjarga sínu bankakerfi. Pakkinn snýst um að danska ríkið ábyrgist innlán og skuldabréfaútgáfu danskra fjármálafyrirtækja sem eftir því óska.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .