Greiningardeild Landsbanka Íslands bendir á að landsframleiðsla hafi dregist saman um 5,5% í kjölfar síldarbrestsins árið 1968, en nýleg skýrsla Danske Bank segir að allar líkur séu á 5-10% lækkun landsframleiðslu á árunum 2006 og 2007.

Í skýrslu Danske Bank kemur fram að þar sem viðskiptahallinn sé nú 20% af vergri landsframleiðslu, stýrivextir komnir yfir 10% og atvinnuleysi aðeins 1% þá séu allar líkur á 5-10% lækkun landsframleiðslu á árunum 2006 til 2007.

Greiningardeild Landsbankans bendir á að höfundar bera saman aðstæður á Íslandi við aðstæður sem voru þegar bankakreppa skall á í Taílandi árið 1997 og í Tyrklandi árið 2001.

?Þó kjósa þeir að taka ekki tillit til fljótandi gengis íslensku krónunnar, en gengi taílenska baht-sins og tyrknesku lírunnar var fast á tímum taílensku og tyrknesku bankakreppunnar. Ennfremur kjósa þeir að horfa fram hjá því að stór hluti útlánaaukningar bankanna er kominn til vegna fjárfestinga íslenskra fyrirtækja á erlendri grundu," segir greiningardeildin.

?Skýrsluhöfundar taka það síðan fram að ef að horft er fram hjá þessum mikilvægu þáttum megi komast að því með hliðstæðuályktun að kreppa sé yfirvofandi á Íslandi. Greinendur hjá Danske Bank telja jafnframt að þessi kreppa sem sé mjög líkleg, ef ekki er tekið tillit til aðstæðnanna hér að ofan, muni verða djúp og langvinn líkt og kreppur á Íslandi hafa jafnan verið (að þeirra mati). Reyndar benda þeir á að þeir hafi ekki fylgst með efnahagsmálum á Íslandi og sýnist engin ástæða til að draga þá fullyrðingu í efa."

Greiningardeild Landsbankans segir að þrátt fyrir að greining Danske Bank sé byggð á rangfærslum hafi hún haft neikvæð áhrif á gjaldeyris- og hlutabréfamarkað í dag.

Krónan veiktist um 2,25% í dag og frá áramótum hefur krónan veikst um rúm 13%. Úrvalsvísitalan lækkaði einnig í dag, um 3,25%. Það sem af er ári hefur Úrvalsvísitalan hækkað um rúm 11% sem verður að teljast mjög góð ávöxtun á ársgrundvelli, segir greiningardeild Landsbankans.