David Cameron forsætisráðherrra Bretlands varði í gær niðurskurð ríkisútgjalda í Bretlandi í ræðu sinni í Davos í gær.

Cameron sagðist ósammála því að valið stæði á milli þess að skera niður og auka hagvöxt. Hann sagði að mikilvægasta verkefni ríkisstjórnar sinnar væri að minnka hallann á ríkissjóði landsins sem er einn sá mesti í Evrópu.

Samdráttur varð í bresku efnahagslífi á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Öllum að óvörum drógst þjóðartekjur saman um 0,5%. Stjórnarandstaðan í Bretlandi kennir miklum niðurskurði ríkisútgjalda um.  Því vísar Cameron á bug.

Fram til ársins 2015 ætlar ríkisstjórn Bretlands að skera niður um 81 milljarð punda.