Debenhams, næst stærsta verslunarkeðja Bretlands, segir að hagnaður fyrir skatta verði á rekstrinum í ár og að skuldastaða fyrirtækisins sé í takt við væntingar sérfræðinga á markaði. Þetta kemur fram í tilkynningu um væntanlegt ársuppgjör sem kom frá félaginu í dag. Gengi hlutabréfa félagsins hækkaði um 8% í kjölfar útgáfu hennar. Sem kunnugt er Baugur stærsti einstaki hluthafinn í Debenhams og á félagið um 13% hlutabréfa.

Ársuppgjör Debenhams verður birt í október mánuði en rekstrarárinu lauk við ágústlok. Sérfræðingar hafa spáð því að hagnaður fyrir skatta á rekstrarárinu verði um 110 milljónir punda en hann nam 131,4 milljónum í fyrra. Því er einnig spáð að skuldir félagsins verði einn milljarður punda við lok rekstrarársins og er það 100 milljónum minna en á sama tíma fyrra.

Haft er eftir Rob Templeman, forstjóra félagsins, að þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður þá væri frammistaða betri en hjá helstu samkeppnisfélögunum og fyrirtæki væri að auka markaðshlutdeild sína. Samkvæmt tilkynningu félagsins þá jókst sala um 1,3% og markaðshlutdeildin jókst í öllum vöruflokkum. Þrátt fyrir þetta gera forráðamenn félagsins að rekstraraðstæður verði áfram erfiðar næstu sex til tólf mánuði. Aðstæður hafa verið erfiðar fyrir smásala í Bretlandi undanfarin misseri en niðursveifla í hagkerfinu hefur gert það að verkum að samdráttur hefur verið á neyslu. Jafnframt er slæmu veðurfari undanfarin tvö sumur kennt um samdrátt.

Debenhams var aftur skráð á hlutabréfamarkað árið 2006 en fyrir það hafði það verið í einkahöndum tæplega þrjú ár. Bréfin voru upphaflega skráð á 195 pens en þau hafa lækkað mikið síðan þá. Hinsvegar hækkuðu þau í morgun um 3,25 pens og stóðu í 46 pens á hlut. Samkvæmt Reuters-fréttastofunni er markaðsvirði félagsins 404 milljónir punda miðað við það gengi. Samkvæmt sömu fréttastofu þá hefur gengi bréfa Debenhams fallið um 61% síðustu tólf mánuði og hefur frammistaðan verið mun verri til að mynda DJ Stoxx-vísitalan fyrir evrópsk smásölufyrirtæki en hún hefur lækkað um 48% á sama tímabili.