Þegar rýnt er í uppgjör deCODE fyrir annan fjórðung beinist athyglin að því að laust fé hefur rýrnað um helming frá áramótum.

Lausafjárstaða deCODE við lok annars fjórðungs nam 49,4 milljónum dollara og hefur hún lækkað hratt, eða úr 94 milljónum dollara um áramót.

Innifalið í lausafjárstöðu er laust fé og ígildi lausafjár. Af þessari upphæð eru 20,6 milljónir dollara bundnar í markaðshæfum skuldabréfum og hefur virði þeirra rýrnað um 20% það sem af er ári.

Laust fé var 23,7 milljónir dollarar í lok júní og því ljóst að hratt gengur á fjármuni félagsins. Ef þróunin verður eins og síðastliðið hálft ár gæti lausafjárstaða orðið áhyggjuefni.

Á uppgjörsfundi félagsins benti greinandi frá Lehman Brothers á þetta og gerði ráð fyrir að félagið þyrfti um 20 til 25 milljónir dollara í laust fé það sem eftir væri árs, en staðan væri tæpir 24 milljón dollarar. Sóttist greinandinn eftir túlkun stjórnenda á stöðunni.

Kári Stefánsson forstjóri sagði að stjórnendur væru að vinna í þessum málum og þó að laust fé liti út fyrir að vera lágt eins og staðan er núna, þá teldu þeir að mikill möguleiki væri á að auka það umtalsvert í nálægðri framtíð. Sagðist hann öruggari sjálfur en hann hefði verið á sama tíma í fyrra.

Kostnaðaraðhald áhersla

Tap deCODE eftir skatta nam 18,4 milljónum dollara og er það töluvert yfir væntingum, eða 17% minna en meðalspár greinenda gerðu ráð fyrir. Tap á öðrum fjórðungi 2007 nam 16,2 milljónum dollara.

Tekjur félagsins hafa aukist um 97% á milli fjórðunga og rekstrarkostnaður dregist saman um 6% borið saman við annan fjórðung fyrir ári.

Útgjöld til rannsóknar- og þróunarmála hafa dregist töluvert saman, um 50% á milli fjórðunga.

Í tilkynningu með uppgjörinu kemur fram að áhersla sé lögð á að grípa tækifærin en sýna á sama tíma kostnaðaraðhald í rekstrinum.

Ekki náðist í Kára Stefánsson, forstjóra deCODE, við gerð þessarar fréttar.