Spánverjar beita sér enn gegn skipan Yves Merch, bankamanns frá Lúxemborg, í framkvæmdastjórn evrópska seðlabankans. Frá þessu greinir fréttaveitan Reuters í dag. Fulltrúar Spánverja komu í veg fyrir tilraun ráðherraráðsins til að ganga frá skipaninni með einskonar flýtileið á dögunum og munu leiðtogar ESB því þurfa að taka málið upp á næsta leiðtogafundi 22 – 23 nóvember næstkomandi.

Spánn er eina aðildarlandið sem opinberlega hefur lýst andstöðu sinni við ráðningu Mersch. Fari hins vegar svo að ekki náist samstaða um málið gæti ákvörðun um ráðninguna frestast fram í desember.

Til stóð að Merch tæki við starfinu af Jose Manuel Gonzalez Paramo sem lét af störfum í framkvæmdastjórninni í lok maí. Spánverjar tilnefndu sjálfir fulltrúa til að taka við af Paramo en varð sá ekki fyrir valinu.

Ýmsir hafa sagt aðgerðir Spánverja til happs fyrir Evrópuþingið sem var mótfallið ráðningu Merch á grundvelli jafnréttissjónarmiða, og vildi konu í starfið. Þingið hefur gagnrýnt ráðherraráðið fyrir að beita sér ekki nægilega fyrir að kona verði ráðin í starfið og hefur ráðið svarað því til að velja verði úr hópi þeirra sem aðildarlöndin tilnefna og sé engin kona í þeim hópi megi lítið við því gera.