Aðalfundi HB Granda var frestað í gærkvöldi og boðað til framhaldsaðalfundar. Ástæðan er sú að allir núverandi fulltrúar í stjórn HB Granda drógu framboð sín til áframhaldandi stjórnarsetu til baka. Ekki var mögulegt að ljúka stjórnarkjörinu þar sem aðeins tveir frambjóðendur voru eftir.

Morgunblaðið greinir frá því að þessir tveir frambjóðendur, Anna G. Sverrisdóttir og Albert Þór Jónsson, hafi notið stuðnings lífeyrissjóða sem hafi freistað þess að gera breytingar á stjórn félagsins í fyrra. Kristján Loftsson stjórnarformaður hefur hins vegar lýst mikilli óánægju með að lífeyrissjóðir geri tilkall til stjórnarsæta í HB Granda.

Gerðist líka hjá VÍS

Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem boða þarf til framhaldsaðalfundar í félagi sem skráð er í Kauphöllina í kjölfar þess að frambjóðendur til stjórnar draga framboð sín til baka. Það sama gerðist á aðalfundi VÍS á dögunum.

Morgunblaðið hefur eftir Páli Harðarsyni, forstjóra Kauphallarinnar, að í næstu viku verði farið yfir stöðuna sem komin er upp. Eðlilegt sé að þeir sem dragi framboð sín til baka geri markaðnum grein fyrir forsendum ákvörðunar sinnar.