Samningaviðræður Delta Air Lines og Northwest Airlines munu að öllum líkindum halda áfram í byrjun næstu viku ef Delta tekst að semja við flugmenn sína.

Wall Street Journal greinir frá þessu í morgun en eins og kunnugt er bárust fréttir af því á mánudag að félögin hefðu hafið viðræður á ný eftir að upp úr þeim slitnaði í byrjun mars.

Ef af sameiningu verður munu um 12 þúsund flugmenn starfa hjá félaginu sem verður stærsta flugfélag heims.

Kjarasamningar flugmanna hjá hvoru félagi þykja, að sögn WSJ nokkuð góðir og hafa stéttarfélög flugmanna lítið viljað gefa eftir. Ónafngreindur heimildarmaður frá Delta sagði við blaðið að ekkert yrði af sameiningu félaganna nema flugmenn sýni sveigjanleika í kjaraviðræðum sínum.

Samningur Northwest við sína flugmenn er ekki jafn strangur að sögn blaðsins og hefur það eftir heimildarmanni að það sé ekkert í kjarasamningi flugmanna Northwest sem hindri samningaviðræður.

Talsmenn flugfélaganna vildu ekki tjá sig opinberlega  um gang mála en Wall Street Journal segir að unnið sé dag og nótt að því að semja við flugmenn Delta Air Lines.