Talið er að niðurstaða dóms í máli þýska hreinlætisvöruframleiðandans Ille Papier gegn Deutsche Bank gæti haft mikil áhrif á þýska fjármálakerfið. Lögmaður bankans sagði fyrir dómi að niðurstaðan gæti jafnvel leitt til annarrar fjármálakrísu.

Málið snýst um vaxtaskiptasamning sem Deutsche bank gerði við Ille Papier árið 2005. Um er að ræða fyrsta málið af þessu tagi en tugir sambærilegra mála hafa verið höfðuð gegn bankanum. Meðal þeirra sem hafa kært bankann eru opinberir aðilar í Þýskalandi. Bankinn er sakaður um að hafa ekki upplýst viðskiptavini sína, í þessu tilviki Ille Papier, nægilega vel og ekki gætt hagsmuna þeirra. Financial Times fjallar um málið í dag.

Dómarinn í málinu sagði að sem ráðgjafi hafi Deutsche Bank átt að verja hagsmuni viðskiptavinarinn. Hinsvegar hafi bankinn grætt á tapi viðskiptavinarins þar sem að bankinn var einnig seljandi skiptasamningsins. Deutsche Bank er gert að greiða fyrirtækinu um 541 þúsund evrur, jafnvirði um 90 milljóna króna, auk vaxta.