Forsvarsmenn Deutsche Bank lögðu til að bankinn myndi taka þátt í að leysa Icesave-málið þegar deilur um það stóðu sem hæst. Þetta kemur fram í nýrri bók blaðamannanna Magnúsar Halldórssonar og Þórðar Snæs Júlíussonar sem ber yfirskriftina Ísland ehf. Auðmenn og áhrif eftir hrun.

Í bókinni segja þeir frá því að Deutsche Bank lagði til að bankinn myndi yfirtaka allar Icesave-innistæðurnar ásamt eignum á móti, eða gamla Landsbankann allan, sem nú heitir LBI. Deutsche Bank myndi síðan gera upp lágmarksinnistæður vð Breta og Hollendinga, sem þáhöfðu þegar greitt innistæðurnar út til Icesave-reikningseigenda í löndunum tveimur. Samhliða þessu yrði endursamið um viðbótargreiðslur landanna til innistæðueigenda umfram lágmarkstrygginguna sem höfðu einnig verið greiddar út og gerðar að forgangskröfum.

Deutsche Bank og fleiri kröfuhafar voru á því að umframgreiðslurnar ættu aldrei að fá forgang og að hægt yrði að auka endurheimtir almennra kröfuhafa með því að láta reyna á það.

Deutsche Bank átti og á enn verulegra hagsmuna að gæta á Íslandi. Bankinn er einn stærsti kröfuhafi föllnu bankanna þriggja. Hann er einnig stærsti kröfuhafi Novators, eignarhaldsfélags Björgólfs Thors Björgólfssonar og var einn stærsti kröfuhafi Actavis.

Bókin Ísland ehf. Auðmenn og áhrif eftir hrun kemur út á morgun, þriðjudaginn 20. ágúst.