DHL tilkynnti í dag um breytingar á starfsemi fyrirtækisins í Bandaríkjunum í kjölfar mikils tapreksturs. 9.500 manns verður sagt upp störfum hjá félaginu vestanhafs. Með þessum aðgerðum mun rekstrarkostnaður fara úr 5,4 milljörðum Bandaríkjadala (4,2 milljörðum evra) í tæplega einn milljarð dala (770 milljónir evra).

Þjónusta DHL Express í Bandaríkjunum mun í framhaldinu einskorðast við hraðflutningaþjónustu milli landa en hraðflutningaþjónustu innanlands verður hætt frá og með 30. janúar 2009. Öll starfsemi verður óbreytt í öðrum löndum. Scott Price, framkvæmdastjóri DHL Express í Evrópu, leggur áherslu á að DHL sé með ráðandi stöðu í hraðflutningum í Evrópu og muni ekki gefa hana eftir í nokkru Evrópuríki.

Að sögn John Mullen, æðsta yfirmanns DHL Express, er gripið til þessara fyrirbyggjandi ráðstafana vegna hins erfiða efnahagsástands í heiminum og fyrirsjáanlegs erfiðs árferðis allt næsta ár. Fyrirtækið hafi ákveðið að leggja áherslu á meginstarfsemi sína, sem sé alþjóðleg hraðflutningastarfsemi, en þar sem nær helmingur allra viðskipta fyrirtækisins snerti Bandaríkin á einn eða annan hátt sé ljóst að DHL verði áfram með starfsemi þar í landi. 71% allra millilandasendinga til og frá öllum helstu borgum í Bandaríkjunum verða skilvirkari vegna bættrar tímaáætlunar og 25% að auki munu ekki raskast. Breytingarnar á rekstri DHL Express munu ekki hafa í för með sér neina röskun á afhendingu sendinga í Bandaríkjunum erlendis frá og lítil sem engin breyting verður á sendingum frá Bandaríkjunum.