Dægurverð á dísel á markaði í Rotterdam hefur hækkað talsvert á árinu þó ekki sé hækkunin jafnmikil og á bensíni. Á föstudag hækkaði verð á tonni dísel frá Frakklandi um rúma 32 dali og kostar það nú 1.079 dali sem er hæsta verð það sem af er ári. Í ársbyrjun kostaði tonnið af dísel tæpa 809 dali og hefur verð því hækkað um rúm 33% á árinu.

Dægurverð á 95 oktana bensíni hækkaði einnig töluvert á föstudag. Í lok dags kostaði tonnið 1.105,25 dali og hækkaði það um 21 dal.

Hækkanir á olíuafurðum, svo sem dísel og bensíni, haldast að sjálfsögðu í hendur við hækkandi olíuverð. Heimsmarkaðsverð á hráolíu heldur áfram að hækka mikið. Við lok viðskipta á föstudag kostaði tunnan af olíu af Brentsvæðinu í Norðursjó 126,65 dali sem er hæsta gildi ársins. Verðið hefur þó gefið lítillega eftir í viðskiptum í nótt og kostar tunnan þegar þetta er skrifað 125,88 dali.