Disney skoðar á ný að kaupa hluta af starfsemi 21st century Fox, og gæti fyrirtækið Comcast einnig komið að samningnum að einhverju leiti að því er WSJ greinir frá.

Snúast samningaviðræðurnar fyrst og fremst um að Disney kaupi kvikmynda og sjónvarspver fyrirtækisins, ásamt eignarhlutum í bresku gervihnattastöðinni Sky og Star TV á Indlandi, ásamt nokkrum kapalsjónvarpsstöðvum í Bandaríkjunum og hlutar Fox í efnisveitunni Hulu.

Búist er við því að Rupert Murdoch og fjölskylda hans, sem halda 39% af atkvæðabærum eignarhlutum í fyrirtækinu taki afstöðu til sölunnar í lok ársins. Samningaviðræður fyrirtækjanna runnu út í sandinn þegar Disney fór á leit við Fox að kaupa hlutina fyrir nokkrum vikum, eftir að ekki náðist samkomulag um verð ásamt öðru.

Í kjölfarið sýndu Comcast, Sony og Verizon fyrirtækinu áhuga, en greinendur á markaðnum hafa áhyggjur af lögsókn bandarískra stjórnvalda á kaupum AT&T á TimeWarner sem Viðskiptablaðið hefur greint frá. Niðurstaðan úr því gæti haft áhrif á frekari kaup og samþjöppun á þessum ört breytilega markaði, þar sem sífellt meiri áhersla er lögð á efnisveitur.