Dollarinn hefur ekki verið lægri gagnvart jeni í 13 ár, að því er segir í frétt Bloomberg. Ástæðan er sögð áhyggjur af því að General Motors og Chrysler verði gjaldþrota ef ríkisstjórn Bush grípur ekki til aðgerða. Öldungadeildin hafnaði fyrir helgi neyðaraðstoð við bílarisana þrjá, GM, Chrysler og Ford, eftir að fulltrúadeildin hafði samþykkt aðstoðina.

Evran sýndi í liðinni viku mestu vikuhækkun gagnvart dollaranum frá því hún var fyrst skráð árið 1999. Ástæðan er sögð vangaveltur um að bandaríski seðlabankinn kunni að fara með vexti næstum niður í núll í næstu viku. Mögulegt er talið að Seðlabanki Evrópu sé nærri endastöðinni í vaxtalækkunarferli sínu, að sögn Bloomberg.

Gengi dollars er nú 91,21 jen og evran er nú 1,3369 dollarar.