Dollarinn lækkaði töluvert í Asíu í morgun í kjölfar þess að tilkynnt var um úrslit í forsetakosningum í Bandaríkjunum. Greiningaraðilar vestanhafs telja lækkunina þó líklega tímabundna.

Kosningaúrslitin benda til þess að demókratar muni áfram halda meirihluta í öldungadeild bandaríska þingsins en repúblikanar í fulltrúadeildinni. Markaðsaðilar eru sagðir óttast að þetta fyrirkomulag verði til þess að áfram verði bandarísk yfirvöld í vandræðum með að ná samstöðu um úrræði á fjárhagsvanda þarlendis. Þetta kemur fram á vef fréttaveitunnar Reuters í dag.

Greiningaraðilar telja að auki að úrræði stjórnvalda undanfarið séu til þess gerð að veikja dollarann. Þá er ákveðin afstaða Obama um mikilvægi þéttara regluverks um fjármálafyrirtæki sögð líkleg til að styrkja stöðu skuldabréfa en veikja stöðu hlutabréfa.