Birgir Þór Bieltvedt, sem verið hefur aðaleigandi Dominos á Íslandi og í Danmörku, er að fá til liðs við sig nýja hluthafa að rekstrinum. Í samtali við Viðskiptablaðið á föstudaginn kom fram að ekki væri endanlega búið að ganga frá málum, en það skýrðist nánar á næstu dögum.

"Ég er ekki búinn að selja neitt en er búinn að fá með mér inn í þetta nýja hluthafa." Birgir Þór segir að þar sé m.a. um að ræða Baug sem verði með nærri þriðjungshlut. Þá komi einnig fleiri aðilar inn í fyrirtækið. -- "Ég held þó áfram að eiga hlut í þessu," segir Birgir Þór og segist áfram verða virkur í rekstrinum. Dominos er talið vera með um 60% markaðshlutdield á pizzumarkaðnum hér á landi.

Birgir Þór stofnaði Dominos á Íslandi ásamt fleirum árið 1993. Á síðustu tveim árum eignast hann nær allt hlutafé í Dominos á Íslandi líkt og í Dominos í Danmörku með kaupum á hlut gömlu stofnendanna. Í ársbyrjun 2005 var Birgir með, í gegnum eignarhaldsfélags sitt B2B ehf., rúmlega 90% eignarhlut í Dominos á Íslandi en heildarverðmæti fyrirtækisins hér á landi var þá talið vera um eða yfir 1.100 milljónir króna.

Eignarhaldsfélög Birgis Þórs eru þrjú. Það eru B2B ehf. sem á Dominos á Íslandi, B2B Holding A/S sem á meirihlutann í Dominos í Danmörku og B2B Holding ehf. sem á hlut í fjárfestingafélaginu M-Holding efh., sem keypti um 90% hlut í dönsku stórversluninni Magasin du Nord í nóvember.