Dönsk flugfélög eru mjög ósátt við dóm hæstaréttar Danmörku sem hefur gert Primera Air að greiða ellefu flugfarþegum bætur vegna tveggja seinkana árið 2013 í kjölfarið á bilunum. Þetta kemur fram á  vefsíðunum Alltumflug.is og stadby.dk.

Um tvö dómsmál eru að ræða en Primera Air tapaði báðum málunum og þarf að greiða hvejum farþega um 60.000 íslenskar krónur. Málið gæti reynst mikilvægt fordæmi en 1.300 sambærileg mál eru í farvatninu sem varða um 4.000 farþega sem hafa lent í svipuðum seinkunum með Primera Air.

Dómsniðurstaðan hefur valdið mögum áhyggjum. Flugfélög í Danmörku óttast að hún stofnað öryggi flugsins í hættu ef flugmenn fara að hunsa viðvaranir um mögulega bilun til að forðast seinkun sem geti komið flugfélagi í þá stöðu að þurfa að greiða milljónir í skaðabætur.

Í viðtali við fjölmiðla sagði Jesper Rungholm, framkvæmdarstjóri Danish Air Transport (DAT), að þó hann viti ekki um neitt flugfélag í Danmörku sem myndi stofna öryggi farþega í hættu þá sé engu að síður verið að taka áhættu með þessum dómi. Rungholm segir að verið sé að refsa flugmönnum fyrir að bregðast rétt við bilunum. „Þetta snýst allt um að áhöfnin geti áhyggjulaust tilkynnt um þau mistök sem þau kunna að gera og tilkynnt bilanir án þess að eiga á hættu að verða refsað fyrir það“, segir Jesper.

Stjórnvöld í Danmörku hafa einnig áhyggjur af afleiðingunum og hefur Samgönguráð Danmerkur ákveðið að málið verður borið undir Evrópudómsstólinn.