Kaldbakur, dótturfélag Samherja, skilaði 496,4 milljóna króna hagnaði í fyrra, samanborið við 402,1 milljónar króna hagnað árið 2011. Félagið er eignarhaldsfélag og heldur m.a. á eignarhlutum í REM Offshore ASA, Þórsmörk ehf. – einum eigenda Árvakurs – og Eignarhaldsfélaginu Snæfugli ehf. Líkt og með önnur félög í Samherjasamstæðunni skilaði félagið samandregnum ársreikningi þannig að hreina veltu er ekki að finna í reikningnum.

Rekstrartap nam 3,2 milljónum króna, en áhrif dótturfélaga námu 939,2 milljónum króna í fyrra, samanborið við 543,4 milljónir árið 2011. Hreint fjármunatap nam 345,7 milljónum króna í fyrra, samanborið við 167,9 milljónir árið 2011. Félagið greiddi 156,1 milljón króna í tekjuskatt í fyrra. Eignir Kaldbaks námu 7,8 milljörðum króna um síðustu áramót og jukust um tæpa 2,9 milljarða milli ára. Eigið fé jókst um 660 milljónir milli ára og nam tæpum 1,4 milljörðum og skuldir jukust um 2,2 milljarða og námu 6,4 milljörðum.