Dr. Ari Kristinn Jónsson, forseti tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík, hefur verið skipaður rektor HR. Hann tekur við embættinu 23. janúar nk. af dr. Svöfu Grönfeldt.

Í tilkynningu kemur fram að Ari Kristinn hefur gegnt stöðu forseta tölvunarfræðideildar HR í tæp 3 ár og hefur um árabil verið í fremstu röð í alþjóðlegu tækni- og vísindastarfi. Hann lauk doktorsprófi frá Stanford-háskóla í Bandaríkjunum árið 1997 og að loknu doktorsprófi hóf hann störf hjá NASA, geimferðastofnun Bandaríkjanna, og starfaði þar í áratug sem vísindamaður og stjórnandi. Hann leiddi ýmsar rannsóknir stofnunarinnar á sviðum gervigreindar og sjálfvirkni, þ.á.m. stærsta þróunarverkefni NASA á þessum sviðum. Hann stýrði þróunarteymi fyrir hugbúnað sem notaður hefur verið til að stjórna daglegum aðgerðum Mars jeppanna Spirit og Opportunity, og síðar stýrði hann þróun á tækni sem aðstoðar við stjórn á sólarrafhlöðum alþjóðlegu geimstöðvarinnar.

Ari Kristinn hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar á ferli sínum. Fyrir störf sín hjá NASA hlaut hann ýmis verðlaun, þ.á m. hin virtu "NASA Administrators's Award" árið 2004, auk þess að fá "Space Act Award" tvisvar. Árið 2007 hlaut hann Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs, en þau eru árlega veitt vísindamanni sem þykir snemma á starfsævinni gefa fyrirheit um árangur í vísindum og rannsóknum og eru þau ein virtasta viðurkenning sem veitt er í íslensku vísindasamfélagi.