Einar Mäntylä hefur verið ráðinn sem verkefnisstjóri og sérfræðingur í nýsköpunarmálum á ​v​ísinda- og nýsköpunarsvið Háskóla Íslands.

Í tilkynningu frá Háskólanum segir að Einar muni vinna að markvissu átaki um eflingu nýsköpunarstarfs innan Háskólans og starfa með Hugverkanefnd Háskóla Íslands og Landspítala.

Einar lauk BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands 1988 og doktorsprófi í sameindaerfðafræði frá Landbúnaðarháskólanum í Uppsölum í Svíþjóð 1997. Eftir að hafa starfað sem nýdoktor í Svíþjóð í tvö ár fluttist Einar til Íslands árið 1999 og byggði m.a. upp aðstöðu til rannsókna í plöntulíftækni við Rannsóknastofnun Landbúnaðarins að Keldnaholti. ​ ​

Einar er einn af stofnendum líftæknifyrirtækisins ORF Líftækni hf. sem stofnað var árið 2000 og​ ​hefur fyrirtækið unnið til ýmissa verðlauna fyrir vörur sínar.  ​Einar hefur ​jafnframt ​hlotið viðurkenningar fyrir frumkvöðlastarf bæði ​innanlands​ og erlendis og tekið virkan þátt í nýsköpunarverkefnum innan Samtaka Iðnaðarins.

Einar starfaði sem aðjúnkt og síðar sem gestadósent við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands frá árinu 2002 og hefur auk þess unnið og kennt við háskóla í Svíþjóð og Þýskalandi og á samnorrænum framhaldsnámskeiðum í lífvísindum. Einar hefur birt fjölda ritrýndra greina og er meðuppfinningamaður á fimm einkaleyfum. Árið 2015 lauk Einar MBA námi í nýsköpun og sprotafyrirtækjamyndun frá Tækniháskólanum í Munchen í Þýskalandi.