Íslendingar geta haldið í sterka krónu og haldið verðbólgu niðri í stað þess að reyna það upptöku annars gjaldmiðils eða tengingu krónu við hann, að sögn dr. Martin Feldsteins, prófessors við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum.

Hann var gagnrýninn á evruna og evrusamstarfið yfir höfuð á ráðstefnu Landsbankans um stöðu og horfur og sagði m.a. þau Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, hafa staðið sig illa við lausn á skuldakreppunni á evrusvæðinu. Hann var engu að síður bjartsýnn á horfur á evrusvæðinu, það muni komast í gegnum erfiðleikana, meira að segja Ítalía og Spánn geti það þótt líklegt sé að Grikkland yfirgefið samstarfið.

Feldstein tók undir með Má Guðmundssyni seðlabankastjóra, að vandinn á evrusvæðinu sé ekki evrunni að kenna. Frekar sé um banka- og skuldakreppu að ræða. Bankar, jafnt hér sem á evrusvæðinu, verði að lúta ströngu eftirliti til að koma í veg fyrir annað bankahrun og aðra fjármálakreppu,

„Það er hægt að koma höndum á verðbólgu lítill ríkja með góðri stjórn peningamála í stað þess að tengja hagkerfið öðrum gjaldmiðlum. Íslendingar geta því verið með sterka krónu án þess að tengjast annarri mynt,“ sagði hann.