*

mánudagur, 6. desember 2021
Innlent 31. ágúst 2016 11:28

Draga framboð til stjórnarsetu til baka

Minnihlutaeigendur í VSV draga framboð sín til stjórnarsetu í fyrirtækinu til baka og telja boðaðan hluthafafund ólöglegan.

Ritstjórn

Í fréttatilkynningu frá Guðmundi Kristjánssyni og Hjálmari Kristjánssyni, sem eru eigendur Brims hf. sem á minnihluta í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum kemur fram að þeir að þeir dragi framboð sín til stjórnarsetu í Vinnslustöðinni hf. til baka. Þeir telja enn fremur boðaðan hluthafafund sem hófst klukkan ellefu í dag ólöglegan.

Í fréttatilkynningunni segir: „Þrátt fyrir allt þetta hefur verið boðað til nýs hluthafafundar í Vinnslustöðinni hf. síðar í dag þar sem á að kjósa þriðju stjórnina á þessu ári. Við teljum þetta vera ólöglega og grófa valdníðslu af hálfu meirihluta hluthafa og gróft brot á reglum hlutafélagalaga. Þykir okkur einnig miður að sjá Lífeyrissjóð Vestmannaeyja, sem lengst af var hlutlaus um málefni Vinnslustöðvarinnar, taka þátt í aðför meirihlutans að okkur, ásamt stjórnarmanni í Landssamtökum lífeyrissjóða. Vakna þá spurningar um hvort lítið sé að marka baráttu lífeyrissjóðanna fyrir bættum stjórnarháttum í hlutafélögum.“

Einnig er tekið fram að „Á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar hf. í Vestmannaeyjum þann 6. júlí sl. voru undirritaðir kosnir í stjórn og varastjórn félagsins. Þegar talningu var lokið líkaði meirihluta hluthafa félagsins ekki niðurstaða kosninganna. Arnar Sigurmundsson fundarstjóri, sem er stjórnarmaður í Landssamtökum lífeyrissjóða og tengist hópi meirihluta hluthafa Vinnslustöðvarinnar sem Haraldur Gíslason fer fyrir, ákvað í samráði við þessa örfáu hluthafa að kosning til stjórnar væri ógild og kosið skyldi aftur. Þessum vinnubrögðum var mótmælt tafarlaust á aðalfundinum. Þrátt fyrir mótmæli og bókanir fundarmanna ákvað fundarstjóri að kjósa aftur. Sú stjórn sem var kosin hefur ekki tekið til starfa. Málið er nú hjá hlutafélagaskrá RSK sem hefur ekki enn kveðið upp úrskurð sinn. Við höfum rétt fram sáttarhönd til meirihlutans, svo friður gæti skapast um félagið, en því hefur verið hafnað.“

Stikkorð: Brim VSV hluthafafundur