Mario Draghi, bankastjóri Seðlabanka Evrópu er orðinn áhrifameiri heldur en Janet Yellen, bankastjóri Seðlabanka Bandaríkjanna í gjaldeyrisviðskiptum milli dollars og evru. Þetta kemur fram í könnun sem gerð var af Barclays Plc. en Bloomberg greinir frá.

Gjaldeyrisviðskipti evru/dollars markaðaðins eru um það bil 1.300 milljarðar dala á hverjum degi, eða um 168.831 milljarðar króna.

Þetta er í fyrsta skipti sem bankastjóri Seðlabanka Evrópu var talinn hafa meiri áhrif heldur en kollegi hans í Bandaríkjunum. Um það bil 50% sögðu stefnu Evrópska seðlabankans vera mikilvægasta áhrifavaldinn en 30% sögðu að stefna Seðlabanka Bandaríkjanna væri mikilvægasta áhrifavaldinn. Könnunin var gerð meðal viðskiptavina bankans, m.a. vogunarsjóða og gjaldeyrismiðlara.