Mario Draghi hefur tilkynnt um að hann muni ekki þiggja laun fyrir störf sín sem forsætisráðherra Ítalíu. Þetta kemur fram í skattaframtali Draghi fyrir árið 2019 en hann gefur ekki frekari skýringu fyrir ákvörðuninni.

Draghi, sem tók við embættinu í febrúar síðastliðnum, mun því gefa eftir 110 þúsund evra árslaun, sem jafngildir um 16,6 milljónum króna. Talið er að Draghi sé með að reyna að sýna samstöðu með almenningi vegna núverandi efnahagsástands. Popúlískir stjórnmálaflokkar hafa oft nýtt sér há laun ítalskra embættismanna, sem eru með þeim hæstu í Evrópu, til að koma höggi á ríkisstjórnina, að því er segir í frétt Financial Times .

Í skattaskýrslunni, sem ítalskir stjórnmálamenn eru skyldugir til að birta opinberlega, kemur fram að tekjur Draghi árið 2019 námu rúmlega 583 þúsund evrum, þar af fékk hann 498 þúsund evrur frá lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna vegna fyrri starfa hans sem seðlabankastjóri Ítalíu og þar áður sem framkvæmdastjóri (e. director general) fjármálaráðuneytisins.

Draghi gegndi stöðu bankastjóra Seðlabanka Evrópu á árunum 2011-2019 þar sem hann fékk tæplega 400 þúsund evrur, eða nærri 60 milljónir króna, í árslaun. Hann á í dag tíu fasteignir, þar af eru níu staðsettar í Ítalíu og ein í London.