Evrópski Seðlabankinn hefur birt stefnu sína til að ná utan um skuldavandamál Evrópu. Bankinn ætlar nú að kaup stutt ríkisskuldabréf til að halda niður lánakostnaði Spánar, Ítalíu og annarra skuldsettra Evrópuríkja. Þetta kemur fram í umfjöllun Wall Street Journal um málið.

Mario Draghi, Seðlabankastjóri Evrópu, sagði á blaðamannafundi að aðgerðirnar ættu að koma í veg fyrir stórar sveiflur á mörkuðum. Bankinn ætlar að kaupa bréf sem falla á gjalddag á næstu einu til þremur árum. Bankinn ætlar ekki að gefa út neinar tölur um hámarkskaup sín á skuldabréfum ríkjanna. Þessar upplýsingar koma heim og saman við þær vangaveltur erlendra fjölmiðla um aðgerðir bankans sem höfðu lekið út áður en Draghi skýrði frá þessu á blaðamannafundi.

Til mótvægis við þessar aðgerðir mun bankinn halda áfram að draga úr peningamagni í umferð og kaup bankans standa líka og falla með því að viðkomandi ríki standi við þau skilyrði sem þeim hafi verið sett af ríkjum evrusvæðisins. Evrópski Seðlabankinn hefur að undanförnu keypt ríkisskuldabréf evruríkja fyrir 209 milljarða evra. Innan Evrópusambandsins er þó ekki algjör eining um þessar aðgerðir því yfirmaður þýska Seðlabankans, Jens Weidman, hefur opinberlega lýst yfir andstöðu sinni við þessar aðgerðir.