Sérfræðingar á markaði eru ekki sammála um hvað skýrir veikingu krónunnar undanfarið. Þeir virðast þó sammála um að það sé ekki ein tiltekin skýring. Þó virðist sem gjaldeyristekjurnar séu að skila sér fremur seint og illa á markað.

Ein ástæða þess kann að vera að þau fyrirtæki sem enn þurfa á skammtímafjármögnun í erlendum gjaldeyri að halda (bæði fjármálafyrirtæki og önnur) séu að kaupa hluta gjaldeyrisins af útflytjendum við hærra verði en markaðurinn greiðir. Krónan veiktist talsvert eftir að Seðlabankinn rýmkaði gjaldeyrisreglurnar 16. desember, sem samræmist þessari kenningu.

Ef þetta er raunin er það mat sérfræðinga að það sé slæmt að afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum fari í skammtímafjármögnun, enda þurfi íslenskt hagkerfi á öllum sínum gjaldeyri að halda inni í kerfið þessa dagana.

Einnig túlkuðu margir á markaði ummæli Paul Thomsen hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðinum fyrir jól þannig að stutt væri í afléttingu gjaldeyrishaftanna, og þar með að sá veikingarkippur sem flestir búast við fyrst eftir að flæðið verður gefið frjálst væri skammt undan, enda veiktist krónan snarpt eftir ummæli hans.

Þeir sem þannig hugsa og eiga gjaldeyri geta geymt hann um tveggja vikna skeið á reikningum áður en þeir selja í samræmi við reglur Seðlabanka um skilaskyldu. Ef þetta er meginorsökin ætti þó krónan að rétta úr kútnum þegar menn þurfa að selja gjaldeyrinn vegna hálfs mánaðar reglunnar. Hvað sem hæft er í þessu þá ríkir veruleg óvissa á markaði.