Hagnaður Íslandsbanka nam 23,1 milljarði króna á síðasta ári. Þetta er 300 milljónum krónum minni hagnaður en árið 2012. Þar af nam hagnaðurinn 7,7 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi sem er 500 milljónum meira en ári fyrr.

Fram kemur í uppgjöri Íslandsbanka að arðsemi eigin fjár eftir skatta var 14,7% á öllu síðasta ári samanborið við 17,2% árið 2012. Á fjórða ársfjórðungi var arðsemin 19,5% samanborið við 19,7% á fjórða ársfjórðungi árið 2012. Lækkunin skýrist af hækkun eigin fjár sem nemur 14,4% milli ára.

Þá kemur fram í uppgjörinu að hreinar vaxtatekjur námu 28,4 milljörðum króna sem er lækkun um 13,7% á milli ára. Vaxtamunur var 3,4% á öllu síðasta ári og fer hann lækkandi samhliða því að afföll á lánasafni sem keypt var frá Glitni fara úr bókum bankans. Þá námu hreinar þóknanatekjur 10,4 milljörðum króna í fyrra sem var 900 milljónum eira en árið 2012. Hækkunina má að mestu rekja til viðskiptabanka, eignastýringar og dótturfélaga bankans.