Umfang íbúðarlána hefur aukist umtalsvert eftir að húsbréfakerfið var afnumið um mitt ár 2004 og viðskiptabankarnir fóru í samkeppni við Íbúðarlánasjóð um húnsnæðislán til almennings, að sögn greiningardeildar Landsbankans.

Á þessu tímabili hafa bankarnir veitt 35.088 lán og nemur heildar upphæð þeirra 354 milljörðum króna. Meðalfjárhæð lánanna er um 10,1 milljón króna.

Það hefur þó dregið úr lánum bankanna til húsnæðiskaupa á þessu ári, samanborið við á sama tíma í fyrra.

Fyrstu þrjá mánuði þessa árs hafa bankarnir veitt 3.065 lán að upphæð 30,9 milljarða króna í samanburði við 5.832 lán að upphæð 60,7 milljarða króna árið 2005. Meðalupphæð lána hefur einnig dregist lítillega saman en hún var 10 milljónir króna fyrstu þrjá mánuði þessa árs en var 10,4 milljónir króna á sama tímabili árið 2005.

Á fyrsta ársfjórðungi námu ný útlán Íbúðalánsjóðs alls 10,1 milljarði króna, er 7 milljarða króna lækkum frá sama tímabili í fyrra.

Greiðslur Íbúðalánasjóðs fyrstu þrjá mánuði ársins námu alls 17 milljörðum króna, samanborið við 41,1 milljarð króna í fyrra en lækkunin endurspeglar að mestu leyti samdrátt í uppgreiðslum húsbréfa, segir greiningardeildin.

Á meðan að útlán bankanna hafa dregist saman um 30 milljarða króna og útlán Íbúðalánasjóðs um 7 milljarða hefur dregið úr uppgreiðslum íbúðalána um 24 milljarða króna.

Upplýsingar Fasteignamats Ríkisins sýna að fjöldi þinglýstra samninga á fyrsta ársfjórðungi á höfuðborgarsvæðinu hafði dregist saman um 15% á meðan að heildarveltan var 10% hærri.