Landsframleiðsla á Spáni féll um 0,2% á þriðja ársfjórðungi og þar með þykir ljóst að fjórða fjölmennasta ríki Evrópusambandsins stendur frammi fyrir efnahagssamdrætti.

Þetta er í fyrsta sinn í 15 ár sem brúttólandsframleiðsla landsins dregst saman og fullyrt er að ekki sjái til lands á næstu mánuðum. Þess hafði verið vænst að drægi úr landsframleiðslunni því á öðrum ársfjórðungi jókst hún ekki nema um 0,1%.

Samdrátturinn er skýrður með minnkandi eftirspurn og hruni á húsnæðismarkaði sem á síðustu árum hefur einmitt búið við stöðugan og mikinn vöxt. Ef svo fer sem horfir verður vöxtur í landsframleiðslunni á Spáni einungis um 1% á þessu ári. Fyrstu tvo ársfjórðungana nam vöxturinn 1,8%.