Skuldsetning fyrirtækja sem hlutfall af vergri landsframleiðslu lækkaði um 24% í fyrra. Skuldir fyrirtækja sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafa ekki verið jafn lágar lágar í tæp níu ár eða frá upphafi árs 2005. Í byrjun síðasta árs var hlutfallið 141%.

Morgunblaðið fjallar um málið og hefur upplýsingarnar upp úr skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika. Þar kom m.a. fram að eiginfjárhlutfall 500 veltumestu fyrirtækja landsins hafi verið komið upp í 36% árið 2012. Til samanburðar var það um 20% árið 2008. Rifjað er upp að í ljósi þessar telji greiningardeild Arion banka að aukið svigrúm sé til fjárfestingar hjá stærstu fyrirtækjum landsins.

Í riti Seðlabankans segir að 2/3 af skuldalækkun fyrirtækjanna megi rekja til lækkunar gengisbundinna lána enda hafi gengislán fyrirtækja lækkað hlutfallslega mest eða um rúm 53% að raunvirði frá því árið 2008. Staða þjónustufyrirtækja er þó enn slæm, að mati Seðlabankans. Ástæðuna má rekja til þess að tekjur fyrirtækja í þjónustu eru að miklu leyti í íslenskum krónum. Seðlabankinn hefur bent á að of mörg þjónustufyrirtækjanna hafi verið fjármögnuð með gengisbundnum lánum á sínum tíma.