Íslenskir neytendur hafa ekki verið bjartsýnni síðan fyrir hrun, samkvæmt nýjustu væntingavísitölu Gallpu. Vísitalan mælist nú 75 stig sem er 11% hækkun á milli mánaða. Á sama tíma í fyrra stóð væntingavísitalan í 61,5 stigum.

Greining Íslandsbanka bendir á það í umfjöllun sinni um vísitöluna í nýjustu útgáfu Morgunkorns að væntingar landsmanna hafi glæðst samfellt undanfarna þrjá mánuði. Það sé í takti við bata í efnahagslífinu almennt, en útlit er fyrir að hagvöxtur á síðasta ári fari jafnvel framúr væntingum spáaðila sem gerðu ráð fyrir að vöxtur síðasta árs yrði á bilinu 2,5 til 3,1%. Þá hafi kaupmáttur launa hækkað um 3,7% í fyrra og einkaneysla aukist um 4,4% fyrstu þrjá ársfjórðunga nýliðins árs. Það geti skýrt ástæðu þess að neytendur eru bjartsýnni nú en oft áður.

Bent er á í Morgunkorninu á að þegar væntingavísitalan er undir 100 stigum eru fleiri svartsýnir en bjartsýnir og hafi vísitalan verið undir 100 stigunum síðastliðin fjögur ár.

„Ekki þarf að koma á óvart að svartsýnir séu enn í meirihluta þrátt fyrir teikn um bata enda eru enn blikur á lofti í hagkerfinu, krónan að veikjast, verðbólgan að aukast, atvinnuleysi er enn hátt og mikil óvissa ríkir um horfurnar framundan í öllum helstu ríkjum í kringum okkur,“ að því er segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.