Yfirferð Orkustofnunar á umsókn félagsins Eykons Energy ehf. að olíuleitar- og vinnsluleyfi á Drekasvæðinu er nú lokið. Einungis á eftir að ganga frá drögum að leyfinu að sögn Skúla Thoroddsen, lögfræðingi hjá Orkustofnun. Skúli segir Eykon Energy og kínverska olíuleitarfyrirtækið CNOOC International Ltd. munu fá leyfisdrögin til umsagnar á næstu dögum.

Eftir afhendingu draganna eiga Eykon Energy og CNOOC tveggja vikna rétt til andmæla. "Ef þeir gera einhverjar athugasemdir við drögin þá þurfum við að skoða það og taka afstöðu til þess. Í framhaldinu eru drögin send til Noregs til umsagnar samkvæmt samningi við þá," segir Skúli og vísar í samning á milli Íslands og Noregs frá árinu 1981 um landgrunnið á svæðinu á milli Íslands og Jan Mayen.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð.