Það hefur gustað talsvert um Jón Ólafsson í gegnum tíðina. Tvö stór mál hafa varað hvað lengst. Rannsókn skattrannsóknarstjóra á skattgreiðslum Jóns vegna vinnu hans hér á sama tíma og hann var búsettur í Bretlandi tók um áratug. Þá tóku málaferli Jóns gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni álíka langan tíma.

Forsaga málsins er sú að Hannes hélt erindi á ráðstefnu norrænna blaðamanna í Reykholti haustið 1999 og sagði þar m.a. að Jón hefði hagnast á sölu fíkniefna á árum áður. Útdrátt úr erindinu setti Hannes á vefsíðu sína sem vistuð var hjá Háskóla Íslands. Jón taldi ummæli Hannesar hafa valdið sér fjárhagslegu tjóni og höfðaði meiðyrðamál gegn honum fyrir breskum dómstólum árið 2004. Dómur féll Jóni í vil í undirrétti árið 2005 þar sem Hannes var dæmdur til að greiða tæpar 20 milljónir króna í bætur og málskostnað. Hannes áfrýjaði málinu til yfirréttar í Lundúnum og hafði betur á þeim forsendum að stefna í málinu hefði ekki verið birt honum samkvæmt íslenskum lögum. Jón tók ekki málið upp að nýju heldur stefndi breska ríkinu fyrir mistök. Hann hafði betur árið 2009.

En hver borgaði brúsann? „Breska krúnan borgaði allt upp í topp,“ segir Jón. Skaðabæturnar sem Hannes var upphaflega dæmdur til að greiða námu 65 þúsund pundum, jafnvirði um 13 milljóna króna, auk 25 þúsund punda málskostnaðar. Með öðrum kostnaði hér og ytra var upphæðin tvöfalt hærri sem Jón fékk eftir baráttu sína gegn Hannesi.

Nánar er rætt við Jón Ólafsson í Viðskiptablaðinu sem kom út 24. júlí 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn tölublöð.