Það dugar ekki að ríkið taki allar krónueignir kröfuhafa gömlu bankanna. Þetta kemur fram í frétt Stöð 2 í kvöld en þar er vitnað í óbirta greiðslujafnargreiningu Seðlabankans fyrir Ísland.

Miklar afborganir af erlendum lánum eftir árið 2016 gera hagkerfinu erfitt fyrir. Umrædd greiðslujafnaðargreining gefur til kynna að allar sviðsmyndir um útgreiðslu úr þrotabúum gömlu bankanna eru óraunhæfar og að gjaldeyristekjur Íslands muni ekki nægja til að greiða af erlendum lánum.

Í frétt Stöðvar 2 kemur fram að þrjár sviðsmyndir hafi verið teiknaðar upp og að alltaf se niðurstaðan að gjaldeyristekjur dugi ekki til. Svokallað „best case scenario“ sem felur í sér að kröfuhafar gefi eftir allar krónueignir sínar, þar á meðal eignarhluti í Arion banka og Íslandsbanka gegn því að taka erlendan gjaldeyri út fyrir landsteinana er þar á meðal.