Nokkuð hefur verið rætt um vöxt og viðgang DV að undanförnu, sér í lagi vegna átaka um eignarhaldið á blaðinu, en Reynir Traustason og hans fólk hafa lagt áherslu á að blaðið virtist loks vera að ná undir sig fótunum eftir margvíslega rekstrarörðugleika á umliðnum árum.

Þrátt fyrir að vera umtalaður fjölmiðill og duglegur að skúbba hefur salan látið á sér standa, hvort heldur litið er til lausasölu, áskriftar eða auglýsingasölu, blaðs eða nets. Sem er ekki síst athyglisvert þegar haft er í huga að DV hefur um nokkurt skeið rekið þriðja vinsælasta vef landsins.

Að ofan gefur að líta fréttaframleiðslu DV á viku. Hún hefur í blaðinu að jafnaði verið um 150 fréttir, en 190 á netinu, þó þar hafi seglin verið nokkuð rifuð að undanförnu. DV á ekki tóma aðdáendur, en það er erfitt að verjast þeirri tilfinningu að það sé ekki síst fórnarlamb breyttra neysluhátta fjölmiðla.