Gengið var frá kaupum Útgáfufélagsins Birtíngs ehf. á DV og dv.is af Dagblaðinu Vísi útgáfufélagi ehf. í dag. Greint er frá þessu á dv.is . Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er þetta gert til að sameina rekstur þessara útgáfufélaga að fullu. Markmiðið er að ná fram frekari hagræðingu.

Félagið Hjálmur, í eigu Stoða Invest , hefur átt um það bil 90% í Birtíngi annars vegar og Dagblaðinu Vísi útgáfufélaginu hins vegar. Birtíngur hefur gefið út nokkur tímarit, svo sem Séð og heyrt, Vikuna og Skakka turninn. Dagblaðið Vísir útgáfufélag hefur gefið út dagblaðið DV og rekið fréttavefinn dv.is.

Rekstur þessara tveggja útgáfufélaga var sameinaður að mestu í júlí í fyrra. Með breytingunum nú er verið að sameina reksturinn að fullu til að ná fram enn meiri hagræðingu.

Hreinn Loftsson hæstaréttarlögmaður er stjórnarformaður beggja félaganna: Birtíngs og DV útgáfufélags.

Baugur Group átti áður Hjálm en eigendur Baugs færðu hann sem og fleiri fjölmiðla og fjarskiptafélög undir Stoðir Invest, nýtt félag, fyrr á árinu. Jón Ásgeir Jóhannesson er stjórnarformaður Stoða Invest og Þórdís Sigurðardóttir er forstjóri.