Áfengisinnflytjandinn Dista telur að árangursviðmið hjá ÁTVR sem byggir á framlegð gangi gegn hagsmunum neytenda og veiti dýrari vörum samkeppnisforskot sem standist ekki lög hefur því stefnt ÁTVR líkt og Viðskiptablaðið sagði frá í síðustu viku.

Dýrari vöru hampað

Í málinu byggir Dista á því að það leiði af lögum um verslun með áfengi og tóbak að horfa eigi til eftirspurnar eftir vöru við val á hvað skuli selja og hvað ekki. Sölumagn endurspegli best viðhorf og væntingar neytenda til vöru, í það minnsta mun betur en framlegð af henni. Sú túlkun eigi sér einnig stoð í greinargerð með frumvarpi því sem varð að fyrrnefndum lögum. Fyrrnefnd reglugerð, um vöruval í verslunum ÁTVR, byggi einnig á því að tryggja beri fjölbreytt vöruúrval í verslunum, m.a. með hliðsjón af eftirspurn og væntingum viðskiptavina. Hvergi í lögum eða lögskýringargögnum sé hins vegar byggt á því að framlegð eigi að ráða vöruúrvali.

„Þessu til viðbótar telur [Dista] að árangursviðmið byggt á framlegð gangi beinlínis gegn hagsmunum neytenda með því að hampa dýrari vöru og gera slíkri vöru auðveldara með að vera í kjarnaflokki. Sem dæmi má nefna, að bjór í 500 ml sölueiningu sem kostar 309 krónur úr verslun [ÁTVR] ber um 42 króna framlegð á meðan bjór sem kostar 399 krónur ber um 55 króna framlegð. Dýrari bjórinn í dæminu þarf einungis að seljast í um 77% af því magni sem ódýrari bjórinn þarf að seljast til að fá forgang í dreifingu," segir í stefnunni. Slíkt þrýsti neytendum í átt að dýrari vöru sem minni eftirspurn er eftir og veiti slíkum vörum samkeppnisforskot.

Krafan um ógildingu er enn fremur byggð á því að málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttarins hafi ekki verið virtar. Aðalmeðferð málsins mun fara fram í upphafi næsta árs.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .