*

sunnudagur, 29. mars 2020
Innlent 22. febrúar 2018 12:17

Dýrt að skipta um forstjóra

Gjaldfærð laun Valgeirs Baldurssonar, fyrrverandi forstjóra Skeljungs, námu 103 milljónum á árinu 2017.

Ritstjórn
Valgeir Baldursson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs er ekki á flæðiskeri staddur.
Haraldur Guðjónsson

Gjaldfærð laun Valgeirs Baldurssonar, fyrrverandi forstjóra Skeljungs, námu 103 milljónum á árinu 2017 en hluti af þeim greiðslum eru gjaldfærð laun vegna starfsloka hans sem greiðast út á þessu ári. Valgeir starfaði sem forstjóri fram til 1. október en líkast til var starfslokasamningur hans ekki af verri endanum því hann fékk ríflega launahækkun milli ára þrátt fyrir að starfa þremur mánuðum skemur en laun hans á árinu 2016 námu rúmum 44 milljónum. Munurinn á launum hans milli ára er því um 59 milljónir króna.

Hendrik Egholm, núverandi forstjóri Skeljungs var með 54 milljónir króna í árslaun og hækkar nokkuð á milli ára en árið 2016 var Hendrik með tæpar 48 milljónir króna í laun.

Þegar ekki er um starfslok að ræða virðist Skeljungur þó greiða forstjóranum öllu lægri laun en samkeppnisaðilinn N1 en launagreiðslur til Eggerts Þórs Kristóferssonar, forstjóra N1, námu rúmum 70 milljónum króna árið 2017 og 58 milljónum króna árið 2016.

Heildarlaun og hlunnindi stjórnar og stjórnenda N1 námu samtals rétt rúmum 240 milljónum króna árið 2017 sem er hækkun um rétt rúmar 32 milljónir á milli ára. Hjá Skeljungi var launakostnaður stjórnenda árið 2017 töluvert hærri eða 450 milljónir króna en árið á undan var hann um 308 milljónir króna.