Hannes Smárason, stjórnarformaður FL Group, segir félagið ekki standa að baki kaupum á bréfum í easyJet á fimmtudag, í samtali við Financial Times, en orðrómur hefur verið um að FL Group stefni að yfirtöku á lággjaldaflugfélaginu. FL Group jók á dögunum hlut sinn í félaginu úr 11,5% í 13,1% en síðan þá hafa verið mikil viðskipti með bréf easyJet.

Síðastliðinn fimmtudag hækkuðu bréfin um ein 7% eftir að velta bréfa í félaginu meir en fjórfaldaðist miðað við það sem gengur og gerist.
Þá kemur fram í samtali Financial Times við Stelios Haji-Ionannou, stofnanda og stjórnarmann í félaginu að ekki standi til að selja hlut hans í félaginu enda séu bréf félagsins undirverðlögð og að stjórnin vinni að því að auka verðmæti þeirra.