Hlutabréf í bresk-ástralska námuvinnslufyrirtækinu Rio Tinto féllu um 4,2% á hlutabréfamarkaðnum í Ástralíu í gær í kjölfar vaxandi efasemda fjárfesta og sérfræðinga um yfirtökutilboð þess á kanadíska álfyrirtækinu Alcan.

Tilboð Rio Tinto, sem er annað stærsta námuvinnslufyrirtæki heims, hljóðar upp á 38,1 milljarð Bandaríkjadala, auk yfirtöku á skuldum, og telja margir að það sé of hátt verð fyrir álfyrirtækið. Hinsvegar telja aðrir að samruni fyrirtækjanna feli í sér samlegðaráhrif og tekjujöfnun og benda á að ekkert sé óeðlilegt við lækkun hlutabréfa í Rio Tinto þar sem að þau hafi hækkað að undanförnu.

Fjármálafyrirtæki eins og Citigroup og ABN Amro hafa breytt mati sínu á hlutabréfum í Rio Tinto úr yfirvogun yfir markaðsvogun. Í greiningu Citigroup á yfirtökutilboðinu kemur fram að þrátt fyrir að töluverð undirliggjandi verðmæti felist í eignum Alcan í báxít- og súrálsframleiðslu, auk þess að fyrirtækið hafi gott aðgengi að ódýrri orku og sé mjög hátæknivætt, sé mörgum spurningum varðandi yfirtökuna ósvarað. Dow Jones-fréttastofan vitnar í einn sérfræðings bankans sem veltir vöngum yfir af hverju Rio Tinto ræðst í fjárfestinguna nú og bendir á að hægt hefði verið að taka Alcan yfir á helmingi lægra verði fyrir tveimur árum. Að sama skapi benda sérfræðingar ABN Amro á að markaðsaðstæður á álmarkaði þurfi að haldast mjög hagstæðar til þess að yfirtakan borgi sig til lengri tíma litið.

Sameinað fyrirtæki, en það mun bera nafnið Rio Tinto Alcan, mun taka við af rússneska álfyrirtækinu Rusal sem stærsti álframleiðandi heims. Thomas Albanese, forstjóri Rio Tinto, sagði í samtali við ástralska ríkisútvarpið, ABC, um helgina að hugsanlega yrðu ákveðnar rekstrareiningar seldar til þess að styrkja efnahag sameinaðs fyrirtækis. Hinsvegar mun Alcan eining sameinaðs fyrirtækis áfram einbeita sér að vinnslu báxíts, súráls og álbræðslu.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.