Íslensk stjórnvöld þurfa að skoða hvort raunverulega sé ríkisábyrgð á skuldabréfum Íbúðalánasjóðs, segir Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, í samtali við Bloomberg fréttaveituna.

„Ríkissjóður hefur ekki efni á þessu,“ segir hún og „það ríkir mikil óvissa um rekstur sjóðsins,“ segir hún. „Því hefur verið haldið fram að það sé ríkisábyrgð á skuldbindingum Íbúðalánasjóðs, en ég er ekki sammála því,“ bætir Vigdís við.

Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirltisins, hefur sagt að rekstur Íbúðalánasjóðs væri ekki sjálfbær miðað við núverandi fyrirkomulag. Í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár kemur fram að ríkissjóður gerir ráð fyrir 4,5 milljarða framlagi til Íbúðalánasjóðs á næsta ári. Framlag ríkissjóðs til Íbúðalánasjóðs frá hruni nemur nú þegar um 40 milljörðum króna.