Hagvöxtur á Evrusvæðinu nam um 1,8% árið 2004, en sérfræðingar spá því að hann nemi einungis um 1,5% árið 2005 og að hann geti jafnvel orðið enn minni ef einkaneysla fer ekki að taka við sér. Atvinnuleysi hefur ekki verið meira í 5 ár og 34% hækkun hráolíu á seinasta ári hefur hindrað efnahagsbata á Evrusvæðinu. Hagvöxtur í Bandaríkjunum var hins vegar mun meiri árið 2004, eða um 4%, og er spáð 2,5 til 3,5% hagvexti árið 2005 sem þýðir að hagkerfi Bandaríkjanna muni líklega vaxa hraðar en hagkerfi Evrusvæðanna í 13 skiptið á seinustu 14 árum, segir í Hálffimm fréttum KB banka.

"Minni hagvöxt í Bandaríkjunum má rekja til stýrivaxtahækkana, hás olíuverðs og að skattalækkanir hafa fjarað út. Björtu hliðarnar eru hins vegar kröftugur vöxtur einkaneyslu, mikil fjáfesting sem drifin er af góðum hagnaði fyrirtækja og bjartari horfur á vinnumarkaði," segir í Hálffimm fréttum.

Atvinnuleysi á Evrusvæðinu er nú 8,9% og sýnir engin merki um að vera að minnka. Atvinnuleysi í Þýskalandi, stærsta hagkerfi Evrusvæðisins, jókst í desember 11. mánuðinn í röð og er atvinnuleysið nú 10,8% sem er það hæsta í 6 ár. Deutsche Bank í Frankfurt, þriðji stærti banki Evrópu, tilkynnti þann 1. desember að á árunum 2005 og 2006 væri áætlað að segja upp 1920 starfsmönnum í Þýskalandi, sem er 7% af starfsliði bankans í landinu. Í Bandaríkjunum eru hins vegar bjartari horfur á vinnumarkaði og spá hagfræðingar því að 175.000 ný störf hafi skapast í desember sem þýðir að atvinnuleysishlutfallið standi í 5,4%.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.