Í viðtali við Bloomberg fréttastofuna í dag segir Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra að efnahagur Íslands sé nú að jafna sig eftir að tímabil ofþenslu sem hafi komið fjárfestum úr jafnvægi sem hafi orðið til þess að krónan veiktist um þriðjung á fyrri hluta árs.

Árni segir að útlitið sé nú mun betra, bankarnir séu nú í betri stöðu en þeir voru í fyrir febrúar og að ríkisstjórnin sé hóflega bjartsýn fyrir komandi ár.

Í viðtalinu tekur Árni fram að þrír stærstu bankar landsins hafi ekki átt í neinum vandræðum með endurfjármögnun fyrir næsta ár.

Árni segir að skjót áhrif lækkunar Fitch á lánshæfismati íslenska ríkisins á gengi krónunnar muni ekki verða til þess að ríkisstjórnin muni íhuga að takmarka fjármagnsstreymi eða að taka upp fastgengisstefnu. Árni segir að bæta verði stjórnun krónunnar með núverandi leiðum.

Árni segir að styrking krónunnar sem hefur orðið að undanförnu geti klárlega haft áhrif á hagvöxt, en ekki sé búist við að króna verði eins sterk á næsta ári.

Hann segist búast við að viðskiptahalli Íslands minnki á næstu árum og segir að allt stefni í betra jafnvægi á næstunni. Árni segir þó að engar stórframkvæmdir séu teknar með í reikninginn og að vitað sé af fyrirhuguðum álverksmiðjuframkvæmdum.