Hagnaður allra fyrirtækjanna í Kauphöllinni – nema Össurs – á öðrum ársfjórðungi mun dragast töluvert mikið saman milli ára, ef marka má meðaltalsspár greiningardeildanna þriggja. En spáð er að hagnaður stoðtækjaframleiðandans Össurar muni aukast um rúmlega 300% á milli ára.

Félagið hefur vaxið hratt með yfirtökum og hefur samþættingarkostnaður litað reksturinn um nokkurt skeið En nú vænta greiningardeildirnar að áhersla verði lögð á arðsemi. Spjót fjárfesta og greinenda munu beinast að bönkunum í þessari uppgjörshrinu. Ekki nóg með að fjármálafyrirtæki skipi stærsta hluta Úrvalsvísitölunnar –og því ræður rekstur þeirra mikið um för íslenska hlutabréfamarkaðarins – þá er lánsfjárkrísa á markaði, og skiptir miklu fyrir fjármálamarkaði hvernig tekst að leysa úr henni. Og hvernig fjármálafyrirtækjum tekst að sigla um þann ólgusjó sem nú er á mörkuðum.

Búist er við að hagnaður viðskiptabankanna þriggja muni dragast saman um 12-32% á milli ára. Og samkvæmt spám mun hagnaðurinn dragast minnst saman hjá Landsbankanum, svo Glitni og Kaupþing rekur lestina. Talið er að hagnaður þeirra muni nema 35,4 milljörðum króna sem er 25% samdráttur milli ára.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .