Talið er að á síðasta ári hafi 8,7 milljón manns á heimsvísu átt meira en eina milljón Bandaríkjadala (75 milljónir króna) í hreinni eign og hafði þeim fjölgað um 6,5% frá árinu áður, segir greiningardeild Glitnis.

?Uppruni þess vaxtar var aðallega í Asíu. Þetta eru um 1,3% jarðarbúa. Af þessum voru um 5,7 milljónir búsettar í Evrópu og Norður-Ameríku. Heildareignir þessara 1,3% jarðarbúa námu í fyrra um 33,3 billjón dollara og af þeim voru 30% í hlutabréfum, 21% í skuldabréfum, 16% í fasteignum, 13% í innlánum og peningum og restin í öðrum fjárfestingum," segir greiningardeildin.

Fyrirtækjarekstur

Eignirnar eru að mestu til komna vegna fyrirtækjareksturs (37%) og af atvinnutekjum (24%) en um 18% hafa erft auð sinn. Merrill Lynch og Capgemini, en það fær greiningardeildin vitneskju sína, spáir að eignir þessa fólks verði komnar í 44,6 billjón dollara árið 2010.

"Fjöldi þeirra sem eiga meira en 30 milljónir bandaríkjadala og geta þar með kallast vellauðugir samkvæmt skilgreiningu í peningalegum eignum var hins vegar 85.400 í fyrra og fjölgaði þeim um 10,2% frá árinu áður," segir greiningardeildin.

Íslendingar

Íslendingar eru efnaðari en almennt er meðal þeirra sem búa á jarðkringlunni. ?Í fyrra mátum við að um 3.000 fjölskyldur hér á landi ættu yfir 100 milljónir króna í hreinni eign. Þetta eru um 2,7% Íslendinga. Ef notað er það fjárhagslega viðmið sem Merrill Lynch og Capgemini nota er ljóst að hlutfall Íslendinga sem eru yfir þeim mörkum fer vel yfir 3% þjóðarinnar," segir greiningardeildin.