„Ég á áttatíu fyrirtæki en enga peninga," sagði danski athafnamaðurinn Morten Lund á frumkvöðlaþingi sem fram fór í Kaupmannahöfn um helgina.

Fjölmiðlamenn sátu um Lund á þinginu og vildu fá svör um lokun Nyhedsavisen.

Þingið er haldið árlega og var fram á síðustu stundu óvíst hvort Lund myndi mæta, eins og upphaflega var planlagt, til að halda erindi.

Mikil fjölmiðlaumfjöllun hefur verið um Lund síðustu vikur eða eftir að hann tilkynnti þá ákvörðun sína að hætta útgáfu Nyhedsavisen.

Fyrir helgi komu í ljós samningsdrög þess efnis að hann fengi 139 milljónir danskra króna frá evrópska fjölmiðlafyrirtækinu Mecom fyrir að leggja niður blaðið.

Kvartar yfir ágangi fjölmiðla

Erindi Lunds á frumkvöðlaþinginu bar fyrirsögnina: „Látum verkin tala." Fjölmiðlar höfðu þó ekki mjög mikinn áhuga á sjálfu erindinu, en þeim mun meiri á svörum Lunds við fyrirspurnum um samningsdrögin. Lund viðurkenndi að þau væru ættuð frá honum en vísaði því á bug að þau hefðu náð fram að ganga.

Hann kvartaði enn fremur sáran yfir umfjöllun fjölmiðla og sagði að þeir vildu helst slátra sér. Hann er sagður hafa tapað yfir hundrað milljónum danskra króna á Nyhedsavisen ævintýrinu.